Manchester City setti félagsmet í gær þegar liðið vann sinn tólfta sigur í röð í öllum keppnum. City vann þá 1:0-baráttusigur gegn botnliði Sheffield United.
Síðasta efstudeildarlið á Englandi til þess að ná þessum árangri var Arsenal haustið 2007.
City auðnaðist sömuleiðis að halda marki sínu áfram hreinu í ensku úrvalsdeildinni. Hefur liðið nú haldið hreinu í fimm leikjum í röð, og raunar 11 af síðustu 13 leikjum í deildinni.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, er að vonum ánægður með árangur sinna manna undanfarna mánuði: „Að sýna svona gott jafnvægi í frammistöðu í desember og janúar er algjörlega stórkostlegt,“ sagði hann eftir sigur gærdagsins.
Guardiola bætti því þó við að hann byggist við að liðið myndi fara að tapa stigum á næstunni.
„Við munum tapa stigum, en þetta snýst um hvernig við komumst yfir það. Vonandi bregðumst við vel við slæmum augnablikum, sem eru pottþétt á næsta leiti.“