Chelsea vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Thomas Tuchels í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar liðið hafði betur gegn Burnley á Stamford Bridge-vellinum í Lundúnum.
Seint í fyrri hálfleik, á 42. mínútu, komst Chelsea yfir. Liðið fór þá í snarpa sókn þar sem Callum Hudson-Odoi keyrði inn í vítateig Burnley-manna, fékk gott utanáhlaup frá César Azpilicueta og sendi boltann á Spánverjann sem kláraði glæsilega upp í fjærhornið, 1:0, og þannig var staðan í hálfleik.
Chelsea réð lögum og lofum allan leikinn og tvöfaldaði loks forystu sína á 84. mínútu. Christian Pulisic var þá með boltann á vinstri kantinum, gaf stutta fyrirgjöf á Marcos Alonso á nærstöngina. Alonso tók boltann á brjóstkassann, lyfti honum upp með hnénu og hamraði svo í slána og inn, glæsilegt mark.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og Chelsea vann því þægilegan og sanngjarnan 2:0-sigur. Burnley sá aldrei til sólar í leiknum og átti ekki eitt einasta skot að marki Chelsea.
Chelsea fer með sigrinum upp í 7. sæti deildarinnar með 33 stig eftir 21 leik. Burnley er áfram í 16. sæti með 22 stig eftir 20 leiki.
Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður fyrir Burnley á 62. mínútu.