Liverpool er nálægt því að ganga frá kaupum á miðverðinum Ben Davies frá enska B-deildarliðinu Preston. Mikil meiðslakrísa hefur verið hjá Liverpool þar sem tveir lykilmenn eru meiddir út keppnistímabilið.
Sky Sports segir frá því að Preston hefur samþykkt kauptilboð upp á tvær milljónir punda frá Englandsmeisturunum en Davies væri ætlað að fylla skarð þeirra Virgil van Dijk og Joe Gomez sem báðir eru meiddir og verða líklega ekkert meira með á tímabilinu. Þá hefur Joel Matip einnig verið töluvert meiddur í vetur og hefur Liverpool meðal annars þurft að tefla fram miðjumönnunum Fabinho og Jordan Henderson í varnarlínunni.
Davies verður samningslaus hjá Preston í sumar og hefur honum því verið frjálst, frá áramótum, að ræða við félög utan Englands og var hann meðal annars sagður í viðræðum við Celtic frá Skotlandi. Hann er 25 ára örvfættur miðvörður og uppalinn hjá Preston þar sem hann hefur spilað 135 deildarleiki í B og C-deildum Englands.