Liverpool áfram á sigurbraut

Mohamed Salah fagnar ásamt Jordan Henderson eftir að sá fyrrnefndi …
Mohamed Salah fagnar ásamt Jordan Henderson eftir að sá fyrrnefndi skoraði annað mark sitt í leiknum. AFP

Liverpool vann góðan 3:1 útisigur gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir nokkuð dapran fyrri hálfleik þar sem ekkert var skorað komu leikmenn Liverpool ákveðnir til leiks og skoruðu þrjú góð mörk áður en West Ham minnkaði muninn undir lokin.

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. West Ham varðist djúpt og Liverpool var mestmegnis með boltann, án þess þó að skapa sér mikið. Bestu tækifæri liðanna í fyrri hálfleiknum fengu Pablo Fornals fyrir West Ham og Xherdan Shaqiri fyrir Liverpool.

Á 24. mínútu átti Aaron Cresswell góða sendingu inn í teiginn, Michail Antonio og Said Benrahma voru að flækjast fyrir hvor öðrum og náðu hvorugur skoti en boltinn barst til Fornals sem skaut að marki en boltinn fór af James Milner og Andrew Robertson skallaði svo frá.

Nokkrum mínútum síðar fékk Shaqiri keimlíkt færi þegar Mohamed Salah lagði boltann út á hann fyrir miðjum teignum, Shaqiri skaut að marki en Craig Dawson náði að renna sér fyrir skotið og tækla boltann út í horn.

Markalaust var því í hálfleik.

Í síðari hálfleik mættu leikmenn Liverpool aðeins ákafari til leiks og meiri hraða gætti í sóknarleik þeirra. Á 49. mínútu átti Divock Origi góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf boltann út í teiginn á Salah sem skaut að marki en Cresswell gerði frábærlega í að komast í veg fyrir skotið með rennitæklingu.

Á 55. mínútu geystist West Ham í skyndisókn, Jarrod Bowen gaf boltann þvert fyrir markið á Antonio, sem þurfti aðeins að sækja boltann til baka en náði því og skaut svo rétt fram hjá markinu frá vítateigslínu.

Tveimur mínútum síðar kom Curtis Jones inn á fyrir Milner og lét umsvifalaust að sér kveða. Hann fékk boltann nánast um leið og hann kom inn á, tók góðan sprett með boltann í gegnum miðjuna, renndi boltanum til hliðar á Salah sem tók nokkrar snertingar, lagði boltann fyrir sig á vinstri löppina og náði svo frábæru skoti í bláhornið án þess að Lukasz Fabianski í marki West Ham fengi nokkuð að gert, 1:0.

Eftir markið fóru liðsmenn West Ham að setja meiri pressu á Liverpool og freistuðu þess að jafna. Fékk liðið margar hornspyrnur og í kjölfar einnar slíkrar kom annað mark, en þó ekki hjá West Ham.

Á 68. mínútu tók West Ham hornspyrnu. Robertson skallaði hana frá, Alexander-Arnold náði boltanum og átti frábæra skiptingu yfir á Shaqiri, sem gaf svo magnaða sendingu inn á teiginn á Salah, sem náði góðri fyrstu snertingu og laumaði svo boltanum fram hjá Fabianski. Frábært skyndisóknarmark og Liverpool komið í 2:0.

Á 84. mínútu gerði Liverpool svo endanlega út um leikinn. Varamennirnir Roberto Firmino og Alex Oxlade-Chamberlain tóku þá glæsilegan þríhyrning í grennd við teiginn, lagleg hælspyrna Oxlade-Chamberlain spilaði Firmino í gegn. Firmino var kominn í góða skotstöðu inni í teignum en hann sá Wijnaldum sér við hlið í enn betri skotstöðu, gaf boltann til hliðar og Wijnaldum gat ekki annað en skorað af stuttu færi, 3:0.

Leikmenn West Ham gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn skömmu síðar. Cresswell tók þá hornspyrnu sem sigldi í gegnum pakkann og Dawson var þar mættur til þess að skila boltanum í markið af stuttu færi, 3:1

Þar við sat og góður sigur 3:1 sigur Liverpool staðreynd. Sigurinn fleytir liðinu upp í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er liðið núna einu stigi á eftir erkifjendum sínum og nágrönnum í Manchester United.

West Ham er áfram í 5. sæti deildarinnar.

Thiago skýtur að marki.
Thiago skýtur að marki. AFP
West Ham 1:3 Liverpool opna loka
93. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með góðum sigri Englandsmeistaranna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert