Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu kveðst vera gríðarlega ánægður með það traust sem honum sé sýnt hjá enska félaginu Burnley sem um helgina framlengdi samning hans til sumarsins 2023.
Jóhann Berg og félagar unnu þrjá mikilvæga sigra í röð á dögunum og komu sér með því af mesta hættusvæði ensku úrvalsdeildarinnar. Hann og unnusta hans eignuðust son á sama tíma og síðan var samningurinn undirritaður.
„Þetta var svo sannarlega góð vika. Við unnum frábæra sigra hjá Burnley og svo fæddist drengurinn okkar að morgni leiksins við Aston Villa,“ segir Jóhann í viðtali á heimasíðu Burnley en hann hefur nú leikið með félaginu í hálft fimmta ár í úrvalsdeildinni.
„Sigurinn gegn Aston Villa var okkur geysilega mikilvægur, síðan bættist samningurinn við þannig að þetta var frábær vika fyrir mig og mína fjölskyldu. Mér líður virkilega vel hjá Burnley og hérna er ég hluti af virkilega góðri fjölskyldu. Ég hef notið þess að spila fyrir félagið og vonandi eigum við líka góða tíma fram undan. Félagið hefur sýnt mér gríðarlega mikið traust og það er ég afar ánægður með.
Ég tel að ég eigi enn heilmikið inni. Meiðslin hafa verið vandamál en nú horfi ég bara til framtíðar, hlakka til að spila fleiri leiki og hjálpa liðinu að komast á enn betri stað í úrvalsdeildinni. Við höfum mikla trú á því á hverju ári að við höldum okkar sæti þar. Við vitum að það er gríðarlega erfitt og þetta tímabil fór ekki af stað eins og við ætluðum.
En við höfum náð okkur aftur á strik og unnið nokkra góða sigra síðustu mánuði. Markmiðið er að halda því áfram, þetta hefur verið frábært gengi undanfarið og við viljum halda þannig áfram. Við höfum sýnt undanfarin ár að við getum gert það gott í úrvalsdeildinni og ættum að geta bætt okkur enn frekar. Það er frábært að halda öllum þessum leikmönnum og sýna að við getum haldið okkar bestu mönnum,“ segir Jóhann en ásamt honum hafa margir af lykilmönnum félagsins framlengt samninga sína við Burnley að undanförnu.