Harry Kane og Jamie Vardy, tveir af markahæstu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, eru frá keppni sem stendur vegna meiðsla en horfur eru á að þeir verði fljótlega klárir í slaginn á ný.
Kane meiddist í tapleik Tottenham gegn Liverpool síðasta fimmtudag og var ekki með þegar lið hans tapaði 1:0 gegn Brighton í gærkvöld. José Mourinho knattspyrnustjóri kveðst vonast eftir því að hann geti leikið með liðinu um aðra helgi þegar Tottenham sækir Manchester City heim.
Vardy hefur misst af þremur síðustu leikjum Leicester en Brendan Rodgers knattspyrnustjóri sagði í dag að hann reiknaði með því að geta teflt honum fram gegn Wolves á sunnudaginn kemur. Leicester hefur fengið eitt stig í þeim tveimur deildarleikjum sem liðið hefur spilað án hans og tapaði 1:3 fyrir Leeds á heimavelli í gær.
Harry Kane er næstmarkahæstur í deildinni með 12 mörk fyrir Tottenham og Vardy er á hælum hans með 11 mörk fyrir Leicester. Mohamed Salah er markahæstur með 15 mörk fyrir Liverpool.