King kominn til liðs við Everton

Joshua King fagnar marki fyrir Bournemouth.
Joshua King fagnar marki fyrir Bournemouth. AFP

Norski knattspyrnumaðurinn Joshua King er kominn til Everton sem kaupir hann af Bournemouth og semur við hann til sex mánaða.

Fyrr í kvöld var skýrt frá því að Bournemouth hefði samþykkt tilboð frá bæði Everton og Fulham í leikmanninn og það var því í hans höndum að velja um ákvörðunarstað sinn.

Ekki tókst að ganga frá pappírsvinnunni áður en félagaskiptaglugganum var lokað klukkan 23 í kvöld en Sky Sports segir að öll gögn hafi þá verið í höfn og búið að skrifa undir þannig að skiptin muni ganga í gegn fyrir klukkan eitt í nótt sem er endanlegur tímarammi til að ljúka félagaskiptunum.

King, sem er 29 ára gamall sóknarmaður og fæddur í Ósló, kom 16 ára að aldri til Manchester United frá Vålerenga og hefur leikið á Englandi síðan, að undanskildri stuttri lánsdvöl hjá Mönchengladbach í Þýskalandi árið 2011.

Hann náði aldrei að leika deildaleik fyrir United, spilaði einn leik í deildabikarnum á fimm árum, en var lánaður til Preston og Hull, auk Þýskalandsdvalarinnar.

King var enn fremur lánaður til Blackburn Rovers og gekk síðan alfarið til liðs við félagið og lék með því til 2015. Bournemouth, sem þá hafði unnið sér sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta skipti, samdi við Norðmanninn og á næstu fimm árum skoraði hann 48 mörk í 161 úrvalsdeildarleik fyrir suðurstrandarliðið.

King hefur verið í lykilhlutverki í norska landsliðinu en hann hefur skorað 17 mörk í 51 landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert