Klopp hrifinn af mörgu hjá nýja varnarmanninum

Jürgen Klopp þurfti að bæta varnarmönnum í hópinn.
Jürgen Klopp þurfti að bæta varnarmönnum í hópinn. AFP

Kaup Englandsmeistara Liverpool á lítt þekktum varnarmanni frá Preston, Ben Davies, sem frágengin voru fyrr í kvöld, hafa vakið athygli og jafnvel furðu. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fer hinsvegar fögrum orðum um nýja manninn.

Klopp viðurkenndi við heimasíðu félagsins að við venjulegar kringumstæður hefði ekki verið leitað að nýjum leikmanni hjá Preston.

„En eftir að við sáum til hans og þau vandamál sem við höfum glímt við urðu ljósari, þá urðum við virkilega spenntir fyrir honum og sögðum: Vá!

Hann hefur leikið allan sinn feril með Preston, sem er eiginlega við bæjardyrnar hjá okkur. Við sjáum vel hvað býr í honum, við sjáum hæfileikana og líka möguleikana því hann er 25 ára gamall og getur bætt sig umtalsvert.

Það er margt í hans leik sem ég er hrifinn af. Hann er virkilega góður fótboltamaður, virðist vera alvöruleiðtogi í liði Preston, er sterkur í návígjum, klókur að lesa leikinn og getur spilað mismunandi stöður því hann hefur ýmist leikið í þriggja eða fjögurra manna vörn,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert