Liverpool í kapphlaupi við tímann

Ozan Kabak gæti gengið til liðs við Liverpool í dag …
Ozan Kabak gæti gengið til liðs við Liverpool í dag ef allt gengur upp í Þýskalandi. AFP

Englandsmeistarar Liverpool í knattspyrnu eru í viðræðum við Schalke um kaup á tyrkneska varnarmanninum Ozan Kabak.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en félagaskiptaglugganum verður lokað klukkan 23 í kvöld.

Kabak, sem er einungis tvítugur að aldri, var sterklega orðaður við Liverpool í síðasta mánuði en Sky Sports greinir frá því að leikmaðurinn muni gangast undir læknisskoðun í Þýskalandi ef Schalke samþykkir kauptilboð Liverpool.

Það gæti hins vegar orðið hægara sagt en gert þar sem Schalke er ekki tilbúið að selja einn sinn besta varnarmann fyrr en þeir hafa fundið álitlegan varnarmann sem getur fyllt skarð Kabaks.

Miðvörðurinn er samningsbundinn Schalke til sumarsins 2024 en Liverpool myndi fá leikmanninn á láni út tímabilið og ætti svo forkaupsrétt á honum næsta sumar.

Liverpool þarf samt sem áður að borga 2,5 milljónir punda fyrir að fá leikmanninn á láni en samkvæmt Sky Sports leita Schalke-menn nú að nýjum miðverði.

Þá eru allar líkur á að Liverpool kaupi miðvörðinn Ben Davies af Preston í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert