Englandsmeistarar Liverpool hafa gengið frá samningum við Schalke í Þýskalandi um lán á tyrkneska varnarmanninum Ozan Kabak og möguleg kaup á honum næsta sumar.
Samkvæmt Sky Sports greiðir Liverpool þýska félaginu um eina milljón punda fyrir lánssamninginn, mögulega getur sú upphæð hækkað í eina og hálfa milljón, og þá verður grunnverð hans í sumar 18 milljónir punda, en allt að 26,5 milljónum punda eftir leikjafjölda og frammistöðu.
Kabak er tvítugur miðvörður sem er þegar byrjaður að spila með tyrkneska A-landsliðinu og á sjö leiki að baki með því ásamt um 60 leikjum fyrir yngri landslið Tyrkja. Hann hefur leikið 55 deildaleiki í Þýskalandi með Schalke og Stuttgart og skorað í þeim sex mörk.
Schalke fær væntanlega þýska miðvörðinn Shkodran Mustafi frá Arsenal til að fylla skarð Kabaks en Mustafi fékk sig í dag lausan frá enska félaginu.
Uppfært kl. 22.00
Liverpool hefur staðfest að lánssamningur við Schalke um Kabak sé genginn í gegn og hann þar með orðinn leikmaður liðsins út þetta keppnistímabil.