Þýski varnarmaðurinn Shkodran Mustafi fékk sig í dag lausan undan samningi við enska knattspyrnufélagið Arsenal og gerði í kjölfarið sex mánaða samning við Schalke í Þýskalandi.
Schalke greiðir Arsenal bætur en hann er laus mála að öðru leyti. Mustafi hefur lítið komið við sögu með Lundúnaliðinu í vetur, aðeins tekið þátt í þremur leikjum í úrvalsdeildinni og í níu leikjum alls á tímabilinu. Hann lék 102 úrvalsdeildarleiki fyrir Arsenal.
Mustafi er 28 ára gamall og kom til Arsenal frá Valencia árið 2016 en lék áður með Sampdoria á Ítalíu og var í röðum Everton í þrjú ár á unglingsárunum án þess að spila leik í úrvalsdeildinni.
Mustafi mun því í fyrsta skipti leika með aðalliði þýsks félags en hann ólst upp hjá Hamburger SV og fór þaðan 17 ára gamall til Everton.