WBA vann slaginn um Arsenalmanninn

Ainsley Maitland-Niles í leik með Arsenal.
Ainsley Maitland-Niles í leik með Arsenal. AFP

West Bromwich Albion hafði betur í baráttu við tvö önnur úrvalsdeildarfélög um að fá enska landsliðsmanninn Ainsley Maitland-Niles lánaðan frá Arsenal.

Þessi fjölhæfi 23 ára gamli leikmaður sem lék fimm fyrstu landsleiki sína fyrir England á síðasta ári verður því í röðum WBA út tímabilið. Hann á eftir að fara í gegnum læknisskoðun hjá WBA síðdegis í dag og þá verður endanlega gengið frá samningum.

Bæði Leicester og Southampton föluðust eftir leikmanninum sem getur spilað báðar bakvarðastöðurnar og einnig á miðjunni. Arsenal vildi helst ekki að hann færi til Leicester sem er mögulega keppinautur liðsins í baráttu um Evrópusæti.

Maitland-Niles hefur verið í röðum Arsenal frá sex ára aldri og spilaði fyrst 17 ára gamall með aðalliðinu í desember árið 2014. Hann hefur spilað 64 úrvalsdeildarleiki og samtals 121 mótsleik fyrir Arsenal á þessum sex árum.

WBA freistar þess að styrkja sig enn frekar áður en félagaskiptaglugganum verður lokað klukkan 23 í kvöld en félagið er langt komið með að fá til sín miðjumanninn Okay Yokuslu frá Celta Vigo á Spáni.

Uppfært kl. 22.50
Félagaskiptin hjá Maitland-Niles og Yokuslu til WBA hafa verið staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert