Gylfi Þór: Mikilvægt að skora fyrsta markið

Gylfi Þór Sigurðsson var ánægður með viðbrögð sinna manna í Everton þegar liðið fylgdi eftir tapi um helgina gegn Newcastle með góðum útisigri gegn Leeds United í kvöld.

„Þetta var frábært. Við vorum vonsviknir með frammistöðuna og úrslitin gegn Newcastle og vorum því staðráðnir í því alla vikuna að ná í úrslit í kvöld og að skora nokkur mörk. Við þurftum að halda út í lokin og náðum stigunum þremur,“ sagði Gylfi Þór.

Hann sagði það hafa verið mikilvægt að skora fyrsta markið í leiknum þar sem Leeds pressi stíft frá fyrstu mínútu. Gylfi Þór gerði það á níundu mínútu.

„Þeir spila á háu tempói. Það er mikið af fyrirgjöfum og mikil hreyfing innan liðsins. Þeir hefðu allt eins getað skorað fyrsta markið snemma leiks. Þannig að það var mikilvægt fyrir okkur að komast einu marki yfir og svo að skora eftir fast leikatriði og vera tveimur mörkum yfir í hálfleik.“

Eins og Gylfi bendir á var Everton 2:0 yfir í hálfleik en Leeds minnkaði muninn snemma í þeim síðari.

„Það voru vonbrigði hvernig við byrjuðum síðari hálfleikinn og hleyptum þeim aftur inn í leikinn. Þetta var mjög opinn leikur og svolítið fram og til baka í endann en sem betur fer voru vörnin og markvörðurinn frábær í kvöld,“ sagði hann.

Viðtalið við Gylfa Þór má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert