Everton vann góðan 2:1 útisigur gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson var fyrirliði Everton í leiknum og kom liðinu á bragðið snemma leiks.
Strax á 9. mínútu leiksins var Gylfi Þór búinn að koma Everton yfir. André Gomes átti þá frábæra sendingu á vinstri kantinn á Lucas Digne. Digne gaf fast og lágt fyrir markið þar sem Gylfi Þór var mættur og stýrði boltanum í netið af stuttu færi, 1:0.
Skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Everton forystu sína. Gylfi Þór tók þá frábæra hornspyrnu frá hægri á nærstöngina, Ben Godfrey var þar og náði að skalla boltann yfir á fjærstöngina þar sem Dominic Calvert-Lewin lúrði og skallaði boltann inn af stuttu færi, 2:0.
Staðan í hálfleik 2:0 fyrir Everton en snemma í þeim síðari minnkaði Leeds muninn. Varnarmenn Everton náðu þá ekki að hreinsa boltann úr teignum, Patrick Bamford lagði boltann til hliðar á Raphinha sem lagði boltann snyrtilega í bláhornið, 2:1.
Þrátt fyrir allnokkra pressu Leeds-manna það sem eftir lifði leiks náðu leikmenn Everton að halda út og höfðu að lokum sterkan 2:1 sigur, sem fleytir þeim upp í 5. sæti deildarinnar.
Leeds er áfram í 11. sæti deildarinnar.
Gylfi Þór lék afar vel í leiknum og var tekinn af velli á 90. mínútu.