Klopp: Þeir áttu skilið að vinna

„Við spiluðum gegn mjög góðum andstæðingi. Það er alveg ljóst. Ég sagði það fyrir leik að þeir eru góðir. Fyrir okkur leit þetta svolítið út eins og þetta væri of erfitt fyrir okkur. Við vorum ekki númer eitt í kvöld, við vorum ekki númer eitt andlega. Ef þú ert ekki klár andlega er mjög sjaldgæft að lappirnar þínar leysi úr vandamálum þínum. Í kvöld gerðist það ekki.“

Þetta sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir 0:1 tap liðsins á heimavelli gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Honum fannst sem Brighton hafi átt sigurinn skilið.

„Þeir eru með góða leikmenn og áttu skilið að vinna þennan leik í kvöld. Það er í fínu lagi en auðvitað viljum við spila betur og á meira sannfærandi hátt en í kvöld. Við töpuðum of mörgum boltum í aðstæðum sem lofuðu góðu. Við byrjuðum á að gera vel, og ég veit að strákarnir geta spilað boltanum frá A til B, en í kvöld gerðum við það ekki á mörgum augnablikum.“

Liverpool lék tvo leiki í Lundúnum undanfarna viku þar sem góðir 3:1 útisigrar náðust gegn bæði Tottenham Hotspur og West Ham United. Klopp telur mögulegt að þeir leikir hafi haft eitthvað að segja um úrslitin í kvöld.

„Akkúrat núna get ég enga raunverulega ástæðu gefið fyrir því [að við spiluðum ekki betur], fyrir utan að við áttum mjög erfiða undanfarna viku þar sem við spiluðum tvisvar í Lundúnum og það að við vorum að spila gegn andstæðingi eins og Brighton.“

Viðtalið við Klopp í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka