Annað heimatap Liverpool í röð – Lingard með tvö í fyrsta leik

Steven Alzate skorar sigurmarkið í leik Liverpool og Brighton.
Steven Alzate skorar sigurmarkið í leik Liverpool og Brighton. AFP

Liverpool tapaði sínum öðrum heimaleik í ensku úrvalsdeildinni í röð þegar liðið laut í lægra haldi, 0:1, gegn Brighton & Hove Albion.

Leikurinn byrjaði líflega. Á þriðju mínútu leiksins slapp Mohamed Salah í gegn eftir langa sendingu Jordan Henderson. Skot hans var þó afar slappt og fór bæði yfir og fram hjá markinu.

Á 24. mínútu komst Dan Burn nálægt því að koma gestunum yfir. Neal Maupau átti þá skot í varnarmann Liverpool innan teigs, boltinn barst til Burn sem skóflaði boltanum yfir úr kjörnu úr dauðafæri.

Markalaust var í hálfleik.

Á 56. mínútu kom Steven Alzate gestunum í Brighton yfir. March átti þá góða fyrirgjöf frá hægri kanti yfir á Burn sem skallaði boltann fyrir markið, Nat Phillips í vörn Liverpool hitti ekki boltann og náði þar með ekki að hreinsa frá, Steven Alzate kom á ferðinni og potaði boltanum inn af stuttu færi, 1:0.

Á 70. mínútu fór Salah illa að ráði sínu þegar hann hefði getað jafnað metin fyrir Liverpool. Trent Alexander-Arnold gaf þá lága sendingu til hliðar á Salah sem skaut boltanum yfir í fyrsta.

Vörn Brighton hélt vel það sem eftir lifði leiks, líkt og allan leikinn og sigurinn að lokum fyllilega verðskuldaður.

Liverpool er nú í fjórða sæti deildarinnar og Brighton fer upp í 15. sæti með sigrinum.

Lingard hetjan í sigri Hamranna

West Ham United vann á sama tíma góðan 3:1 útisigur gegn Aston Villa þar sem Jesse Lingard skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Öll mörk leiksins komu í síðari hálfleik. Tomas Soucek kom Hömrunum á bragðið á 51. mínútu þegar hann slapp í gegn eftir sendingu Said Benrahma og þrumaði boltanum niður í fjærhornið.

Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Lingard forystuna fyrir West Ham. Hann fékk þá sendingu frá Michail Antonio eftir skyndisókn, skaut að marki með vinstri fæti, skotið nokkuð nálægt Emi Martínez sem varði boltann inn, 2:0.

Á 81. mínútu minnkaði Aston Villa muninn. Ollie Watkins gaf þá á Jack Grealish, fékk svo stungusendingu frá honum og kláraði vel í nærhornið.

Aðeins tveimur mínútum seinna skoraði Lingard annað mark sitt og þriðja mark Hamranna. Aftur gaf Antonio á hann eftir skyndisókn og aftur fór skotið beint á Martínez sem varði boltann klaufalega í fjærhornið, 3:1.

West Ham fer þar með upp í fimmta sæti deildarinnar en Aston Villa heldur kyrru fyrir í því níunda.

Jesse Lingard fagnar öðru marki sínu í leik Aston Villa …
Jesse Lingard fagnar öðru marki sínu í leik Aston Villa og West Ham United. AFP
Liverpool 0:1 Brighton opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með 1:0 sigri Brighton. Annað heimatap Liverpool í deildinni í röð staðreynd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka