Þægilegt hjá Man City og Leicester

Raheem Sterling í þann mund að skora annað mark Manchester …
Raheem Sterling í þann mund að skora annað mark Manchester City í leiknum. AFP

Manchester City og Leicester City unnu bæði góða 2:0 útisigra í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Man City vann Burnley og Leicester hafði betur gegn Fulham.

Í viðureign Burnley og Manchester City tóku gestirnir frá Manchester forystuna strax á þriðju mínútu leiksins. Raheem Sterling fann þá Bernardo Silva í vítateig Burnley, Silva lét skot ríða af, beint á Nick Pope í marki Burnley sem varði boltann of stutt út þar sem Gabriel Jesus beið átekta, fleygði sér fram og skallaði boltann af öryggi í nærhornið af stuttu færi, 1:0.

Á 38. mínútu tvöfaldaði City forystu sína. Riyad Mahrez fann þá Ilkay Gundogan utarlega í teignum hægra megin nálægt endalínunni. Gundogan átti fasta og lága fyrirgjöf sem fór framhjá Pope og eftirleikurinn því auðveldur fyrir Sterling sem kláraði af stuttu færi í opið markið, 2:0.

Þannig stóðu leikar í hálfleik. Á 57. mínútu virtist Mahrez vera að koma City í 3:0 en markið var dæmt af vegna rangstöðu, handarkriki hans fyrir innan að mati VAR.

City var áfram með tögl og hagldir í leiknum án þess þó að bæta við mörkum en sigldi að lokum þægilegum 2:0 sigri í höfn.

City er áfram í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á undan Manchester United, auk þess sem City á leik til góða.

Burnley dettur niður í 16. sæti deildarinnar.

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn fyrir Burnley.

Leicester aftur í þriðja sætið

Leikur Fulham og Leicester þróaðist á mjög svipaðan hátt.

Á 17. mínútu komst Leicester yfir. James Maddison fékk þá boltann úti á hægri kanti. Hann gaf fyrir markið, fann þar Kelechi Iheanacho sem skallaði boltann af krafti í netið og staðan orðin 1:0.

Skömmu áður en flautað var til hálfleiks tvöfaldaði Leicester forystu sína. Eftir snarpa sókn var Maddison skyndilega kominn einn í gegn. Hann átti þó í smá vandræðum með að leggja boltann almennilega fyrir sig en tók svo glæsilegan snúning, lagði boltann til hliðar á James Justin sem lék á Alphonse Areola í marki Fulham og rennitæklaði boltann svo í netið, 2:0.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og urðu það sömuleiðis lokatölur.

Leicester er þar með komið aftur í þriðja sæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið, en Liverpool getur aftur náð því með sigri gegn Brighton & Hove Albion síðar í kvöld.

Fulham er áfram í 18. sæti, sjö stigum frá öruggu sæti.

James Justin tvöfaldar forystu Leicester City.
James Justin tvöfaldar forystu Leicester City. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka