Ég er í besta starfi í heimi

Emma Hayes, fyrir miðju, var tilnefnd í kjöri FIFA á …
Emma Hayes, fyrir miðju, var tilnefnd í kjöri FIFA á þjálfara ársins 2020 ásamt Sarina Wiegman, til vinstri, og Jean-Luc Vasseur, til hægri. AFP

Emma Hayes segir að það komi ekki til greina að yfirgefa meistaralið Chelsea í kvennaflokki til að taka við sem knattspyrnustjóri C-deildarliðs Wimbledon í karlaflokki.

Hayes var á dögunum talin vera í hópi þeirra sem kæmu helst til greina til að taka við liði Wimbledon eftir að það rak stjórann sinn, Glyn Hodges, og  verða þar með fyrsti kvenkyns knattspyrnustjórinn í enska karlafótboltanum. Hún hefur verið mjög sigursæl með lið Chelsea undanfarin níu ár en liðið er ríkjandi Englandsmeistari og hefur unnið þann titil þrisvar á þessum tíma.

Eftir stórsigur Chelsea á West Ham, 6:0, í undanúrslitum enska deildabikarsins í kvennaflokki í gærkvöld sagði Hayes að hún væri afar ánægð hjá Chelsea og það yrði ekki hægt að kaupa sig frá því starfi.

„Ég vona svo sannarlega að Wimbledon finni rétta stjórann fyrir félagið. Með því að þeir hafi ekki efni á mér á ég ekki við peninga, heldur það að ég er í besta starfi í heimi. Engin fjárhæð mun freista mín til að hætta því,“ sagði Emma Hayes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka