Gylfi Þór Sigurðsson hefur nú skorað gegn átján af þeim tuttugu félögum sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu keppnistímabili og gegn 27 félögum samtals.
Hann skoraði sitt 64. mark á ferlinum í deildinni í gærkvöld, í 301 leik, þegar Everton lagði Leeds að velli, 2:1, á Elland Road og bætti þar með Leeds á listann yfir þau félög sem hann hefur skorað gegn.
Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem Gylfi mætir Leeds sem ekki hafði leikið í úrvalsdeildinni í sextán ár, þar til í vetur. Fyrri viðureign liðanna á Goodison Park í nóvembermánuði er eini leikur Everton á þessu tímabili sem Gylfi hefur ekki spilað en hann sat allan tímann á varamannabekknum í þeim leik.
Einu félögin sem nú leika í úrvalsdeildinni og Gylfi hefur ekki skorað hjá eru Wolves og Brighton.