Risatilboð frá Englandi í Skagamanninn?

Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu.
Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu. Ljósmynd/Norrköping

Enska úrvalsdeildarfélagið Wolves lagði fram risatilboð í íslenska knattspyrnumanninn Ísak Bergmann Jóhannesson í janúarglugganum.

Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag en Ísak hefur verið orðaður við stærstu lið Evrópu undanfarna mánuði.

Skagamaðurinn er samningsbundinn Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni en hann er einungis 17 ára gamall og lék sinn fyrsta A-landsleik á síðasta ári þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA á Wembley.

„Það kom alvörutilboð í hann frá Úlfunum en ég fékk aldrei að heyra hversu hátt það var,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Dr. Football í dag.

„Norrköping voru tilbúnir að selja hann fyrir þessa upphæð en 17 ára guttinn sagði bara nei.

Hann vildi taka eitt ár í viðbót hjá Norrköping. Pælið í því að vera með þroskann til þess að hafna þessu og taka svona ákvörðun,“ bætti Hjörvar við.

Leikmaðurinn var sterklega orðaður við Red Bull Salzburg í vetur en nú er ljóst að hann ætlar sér að taka allavega eitt tímabil í viðbót í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka