Chelsea hafði betur í Lundúnaslagnum

Jorginho gerði sigurmark Chelsea.
Jorginho gerði sigurmark Chelsea. AFP

Chelsea gerði góða ferð til nágranna sinna í Tottenham Hotspur þegar liðið vann 1:0 sigur í mikilvægum leik í baráttunni um Evrópusæti í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Chelsea var með yfirhöndina í leiknum lengst af en eftir nokkra pressu frá Tottenham undir lokin dugði vítaspyrnumark Jorginho að lokum til þess að tryggja Chelsea stigin þrjú.

Í fyrri hálfleiknum réð Chelsea lögum og lofum og ógnaði stöðugt hægra megin með Englendingana ungu, Reece James og Callum Hudson-Odoi, í broddi fylkingar.

Á 23. mínútu fékk Chelsea vítaspyrnu. César Azpilicueta sendi þá langan bolta fram og fann þar Timo Werner. Eric Dier reyndi að ná boltanum af honum með rennitæklingu en tókst ekki. Er Dier lá enn þá í jörðinni reyndi hann aftur að ná boltanum en það fór ekki betur en svo að hann felldi Werner og vítaspyrna réttilega dæmd. Afar klaufalegt hjá Dier.

Jorginho, sem að þessu sinni sleppti hoppinu sem hann er orðinn þekktur fyrir við framkvæmd vítaspyrna, tók spyrnuna og skoraði með föstu skoti í vinstra hornið, 1:0. Hugo Lloris í marki Tottenham fór í rétt horn en skotið of fast.

Á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Mason Mount í dauðafæri eftir góðan undirbúning Hudson-Odoi. Dier náði að renna sér fyrir skot Mount frá vítateigslínunni á ögurstundu og Lloris greip svo boltann í kjölfarið.

Chelsea fór því með eins marks forystu í hálfleik. Í byrjun síðari hálfleiks setti Tottenham nokkra pressu á Chelsea en gestirnir náðu þó fljótt stjórn á leiknum á ný.

Um miðjan síðari hálfleikinn átti Mateo Kovacic góðan sprett í gegnum miðjuna og var skyndilega kominn í dauðafæri en Toby Alderweireld náði aðeins að trufla hann í skotinu og fór það að endingu fram hjá.

Á 75. mínútu átti Mount svo frábæran sprett, hann lék á Alderweireld innan teigs og skaut föstu skoti með vinstri fæti í fjærhornið en Lloris varði mjög vel.

Á 79. mínútu átti Érik Lamela gott skot fyrir utan teig sem stefndi í bláhornið en Edouard Mendy í marki Chelsea varði vel.

Næst komst Tottenham því að jafna á 87. mínútu þegar Serge Aurier átti frábæra fyrirgjöf frá hægri kanti á fjærstöngina þar sem Carlos Vinícius fékk frían skalla en hann hitti boltann ekki nægilega vel og skalli hans fram hjá.

Þar við sat og Chelsea fór með sigur af hólmi.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, tapar þar með tveimur heimaleikjum í röð í deild í fyrsta skiptið á þjálfaraferli sínum.

Chelsea hefur nú haldið hreinu í fyrstu þremur deildarleikjum sínum undir stjórn Thomas Tuchel. Það hefur ekki gerst hjá nýjum knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni síðan José Mourinho gerði slíkt hið sama með Chelsea árið 2004.

Með sigrinum fer Chelsea upp í 6. sæti deildarinnar. Tottenham fer niður í 8. sæti.

Eric Dier sparkar Timo Werner klaufalega niður innan teigs sem …
Eric Dier sparkar Timo Werner klaufalega niður innan teigs sem leiddi til þess að víti var dæmt. Jorginho skoraði svo úr vítaspyrnunni. AFP
Steven Bergwijn og Marcos Alonso í leiknum í kvöld.
Steven Bergwijn og Marcos Alonso í leiknum í kvöld. AFP
Tottenham 0:1 Chelsea opna loka
94. mín. Leik lokið Chelsea fer með 1:0 sigur af hólmi í Lundúnaslagnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka