Jóhann Berg Guðmundsson skoraði mark Burnley þegar liðið gerði 1:1 jafntefli gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Eina mark fyrri hálfleiks skoraði Brighton. Þá tók Pascal Gross hornspyrnu frá hægri og fann þar fyrirliðann Lewis Dunk, sem skallaði boltann af krafti í netið á 36. mínútu.
Snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu, jafnaði Jóhann Berg metin fyrir Burnley. Eftir þunga sókn fékk hann boltann rétt innan vítateigs og skoraði með föstu vinstrifótarskoti í nærhornið.
Þar við sat og þurftu liðin að sættast á eitt stig hvort.
Auk þess að skora mark Burnley spilaði Jóhann Berg allan leikinn og nældi sér í gult spjald í fyrri hálfleik.
Burnley fer niður í 17. sæti deildarinnar með jafnteflinu en Brighton er áfram í 15. sæti.