Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Millwall þegar liðið vann góðan 4:1 sigur á Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni í knattspyrnu í dag. Jón Daði lagði upp þriðja mark Millwall.
Millwall lenti undir strax á 10. mínútu leiksins en náði að jafna metin á 39. mínútu þegar Kennetz Zohore skoraði úr vítaspyrnu. Staðan því 1:1 í hálfleik.
Á 68. mínútu kom Scott Malone Millwall yfir og aðeins mínútu síðar lagði Jón Daði upp mark fyrir Ben Thompson. Staðan skyndilega orðin 3:1.
Undir lok leiksins skoraði svo Tom Bradshaw fjórða markið og gulltryggði sigur Millwall.
Millwall siglir lygnan sjó í ensku B-deildinni og er nú 13. sæti. Sheffield Wednesday er í vandræðum og er í 23. og næstneðsta sæti deildarinnar.
Jón Daði var tekinn af leikvelli á 86. mínútu leiksins.