Níu Newcastle-menn unnu Southampton

Miguel Almirón fagnar marki sínu í leiknum í dag.
Miguel Almirón fagnar marki sínu í leiknum í dag. AFP

Newcastle United vann frábæran 3:2 sigur gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Eftir að hafa leitt 3:1 í hálfleik fékk Newcastle á sig mark, rautt spjald og missti svo mann af velli meiddan þegar liðið var búið með skiptingar sínar í þeim síðari.

Á 16. mínútu tók Newcastle forystuna. Þá átti Fabian Schär góða sendingu á Allan Saint-Maximin, sem rak boltann áfram og gaf svo fyrir á Joe Willock sem var einn fyrir miðjum teignum og skoraði af stuttu færi, hans fyrsta mark fyrir félagið í sínum fyrsta leik eftir að hafa komið á láni frá Arsenal á dögunum.

Tíu mínútum síðar tvöfaldaði Newcastle forystu sína. Miguel Almirón sendi þá fastan bolta fyrir markið, sem var reyndar hugsanlega skot, Jan Bednarek reyndi að hreinsa frá en varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark, annað sjálfsmark hans í jafnmörgum leikjum.

Eftir hálftíma leik minnkaði Southampton muninn. Þar var að verki Takumi Minamino í sínum fyrsta leik fyrir félagið eftir að hafa komið á láni frá Liverpool. Minamino fékk sendingu frá Ryan Bertrand, tók frábæra fyrst snertingu inn í teiginn og hamraði boltanum síðan glæsilega með vinstri fæti upp í þaknetið og staðan því orðin 2:1.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Newcastle aftur í tveggja marka forystu. Alex McCarthy í marki Southampton gaf þá erfiða sendingu til hliðar á Bertrand sem reyndi að pikka boltanum fram hjá Almirón. Það fór ekki betur en svo að Almirón náði boltanum, var sloppinn einn í gegn og kláraði vel í nærhornið.

Staðan því 3:1 í hálfleik.

Southampton kom af krafti inn í síðari hálfleikinn og minnkaði muninn strax á 48. mínútu. Þar var að verki James Ward-Prowse með stórglæsilegu aukaspyrnumarki.

Aðeins mínútu síðar missti Newcastle Jeff Hendrick af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Eftir það tóku liðsmenn Southampton öll völd á vellinum en náðu ekki að koma boltanum í markið.

Á 77. mínútu þurfti Schär að fara meiddur af velli. Newcastle var þá búið með allar skiptingar sínar og þurfti því að spila tveimur mönnum færra það sem eftir lifði leiks.

Áfram hélt Southampton að pressa í leit að jöfnunarmarki en allt kom fyrir ekki og pínlegt tap niðurstaðan.

Newcastle fer upp í 16. sæti með sigrinum en Southampton er áfram í 12. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert