Enski landsliðsmiðjumaðurinn Phil Foden segist vilja spila fyrir Manchester City allan sinn feril. Hann geti einfaldlega ekki ímyndað sér að spila fyrir annað félag.
„Ég get einungis séð mig spila fyrir Manchester City, ekki síst vegna þess hversu harður stuðningsmaður liðsins ég hef verið síðan ég var ungur,“ sagði Foden í samtali við BBC.
Foden, sem er aðeins 20 ára gamall og hefur þegar spilað yfir 100 leiki fyrir City í öllum keppnum, hefur leikið afar vel á tímabilinu.
„Það hjálpar alltaf þegar þú spilar fyrir liðið sem þú styður. Þegar ég var yngri var það draumur að spila fyrir félagið þannig að ég bjóst aldrei við því að ná 100 leikjum svona snemma,“ sagði hann.
Á þessu tímabili hefur Foden skorað níu mörk í 27 leikjum í öllum keppnum.
„Ég myndi ekki segja að ég væri að gera neitt öðruvísi á þessu tímabili, ég er bara að spila framar. Undanfarin ár hef ég spilað á miðjunni. Um þessar mundir er ég á kantinum og maður fær alltaf sjálfstraust þegar maður skorar, sérstaklega í tveimur leikjum í röð.
Stundum er maður heppinn þegar færin falla fyrir mann. Ég nýt þess að skora mörk og það er einmitt það sem ég vildi bæta við leik minn,“ sagði hann einnig.