Watkins aftur banabiti Arsenal

Jack Grealish og Ollie Watkins fagna sigurmarki þess síðarnefnda.
Jack Grealish og Ollie Watkins fagna sigurmarki þess síðarnefnda. AFP

Aston Villa vann góðan 1:0 sigur gegn Arsenal á Villa Park vellinum í Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Ollie Watkins skoraði sigurmarkið snemma leiks.

Aston Villa tók forystuna eftir aðeins 73 sekúndur. Cédric Soares, bakvörður Arsenal, átti þá hræðilega sendingu til baka sem Bertrand Traoré komst inn í. Traoré lék með boltann inn í vítateig, lagði hann út á Watkins sem skaut milli lappa Rob Holding en þó fór boltinn aðeins í aðra löppina á Holding og þaðan lak boltinn í hornið fram hjá Mat Ryan, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Arsenal.

Síðari hálfleikurinn fór afar fjörlega af stað og skiptust liðin á því að komast í fín færi. Fjölda færa fækkaði í kringum miðbik hálfleiksins en undir lok leiks fengu bæði lið kjörin tækifæri til þess að skora.

Þar má helst nefna tvö góð færi Watkins í teignum á 83. og 86. mínútu. Fyrst fékk hann boltann frá Jack Grealish og skaut lúmsku skoti rétt fram hjá og svo komst hann í gott færi á svipuðum stað en skot hans í hornið mjög vel varið af Ryan.

Á milli þessara færa Watkins fékk Martin Ødegaard dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Arsenal. Hann fékk þá sendingu út í miðjan teiginn en þrumaði boltanum yfir markið.

Þótt ótrúlegt mætti virðast var ekki meira skorað í leiknum og Aston Villa fór því með eins marks sigur af hólmi.

Aston Villa vann einnig fyrri viðureign liðanna fyrr á tímabilinu, þar sem Watkins skoraði tvö mörk í 3:0 sigri. Hann er nú kominn með 10 mörk í 22 deildarleikjum.

Aston Villa fer með sigrinum upp í 8. sæti deildarinnar. Arsenal er áfram í 10. sæti.

Aston Villa 1:0 Arsenal opna loka
96. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með 1:0 sigri Aston Villa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert