David de Gea átti ekki sinn besta leik í marki Manchester United í 3:3-jafnteflinu við Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi.
De Gea átti að gera betur í fyrsta og þriðja marki Everton og Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, var einn þeirra sem gagnrýndi Spánverjann í leikslok.
Spænski markvörðurinn hefur varið 60,9% þeirra tilrauna sem hafa ratað á markið frá andstæðingunum til þessa á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni.
Aðeins Rui Patricio hjá Wolves er með verri tölfræði af þeim markvörðum sem minnst hafa spilað 15 leiki á leiktíðinni, eða 59,7%.
Everton átti þrjár tilraunir á markið í gærkvöldi og enduðu þær allar með marki.