Ætti ekki að tala um okkur sem titilbaráttulið

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var að vonum svekktur eftir 3:3 jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

„Við áttum skilið að vinna leikinn en svona er fótboltinn. Þú verður að nýta færin og mátt ekki fá á þig mark úr hverju skoti,“ sagði hann í samtali við BBC eftir leik í gærkvöldi.

Man. Utd fór með tveggja marka forystu í leikhlé en Everton var búið að jafna metin á 52. mínútu. „Í fyrri hálfleik fannst mér við ekki spila neitt sérstaklega vel en við skoruðum tvö frábær mörk. Við fórum inn í leikhlé og fannst sem við værum ekki komnir á okkar besta stað.

Eftir að þeir jöfnuðu í 2:2 spiluðum við mjög vel en svo var síðasta spyrna leiksins löðrungur í andlitið og við fórum vonsviknir heim,“ sagði Solskjær, en Everton jafnaði í 3:3 á fimmtu mínútu uppbótartíma eftir að Scott McTominay hafði komið Man. Utd í 3:2.

Að lokum sagði Solskjær að ekki ætti að tala um lið hans sem titilbaráttulið. „Við erum ekki að tala um að vinna titla. Við höfum bætt okkur mikið. Það ætti ekki að tala um okkur sem lið sem er að berjast um að vinna titilinn. Þessu er beint til ykkar [fjölmiðla]. Við höfum batnað sem lið, sjáum hvar við endum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert