Harry Kane var nokkuð óvænt með Tottenham á nýjan leik þegar liðið sigraði WBA, 2:0, á heimavelli sínum í London í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Kane meiddist á ökkla gegn Liverpool 28. janúar og ekki var reiknað með honum fyrr en í næsta eða þarnæsta leik liðsins.
En Kane hóf leikinn og braut ísinn fyrir Tottenham með marki á 54. mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði Son Heung-Min eftir skyndisókn.
Harry Kane jafnaði með markinu Bobby Smith sem annar mesti markaskorarinn í sögu Tottenham. Þetta var 208. mark Kane í 317 leikjum fyrir félagið en svo merkilega vill til að Smith lék líka 317 leiki fyrir félagið.
Kane á þó enn talsvert í land með að jafna markamet félagsins en Jimmy Greaves, sem um áramótin fékk heiðursorðu Breska samveldisins, skoraði 266 mörk í 379 leikjum fyrir Tottenham á árunum 1961 til 1970.
Þá er þetta sjöunda tímabilið í röð þar sem Kane skorar 20 mörk eða fleiri í mótsleikjum fyrir Tottenham.
Þeir Kane og Son hafa nú gert 13 mörk hvor í úrvalsdeildinni í vetur og eru í öðru til fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn hennar ásamt Bruno Fernandes hjá Manchester United og Dominic Calvert-Lewin hjá Everton. Mohamed Salah hjá Liverpool er markahæstur með 15 mörk.
Tottenham komst með sigrinum upp fyrir Chelsea og Aston Villa og í sjöunda sætið með 36 stig. WBA er áfram næstneðst með 12 stig og er ellefu stigum frá því að komast úr fallsæti. Sam Allardyce á því langt í land með að bjarga liðinu frá falli en þetta var hans tíundi leikur með liðið.