Markalaust á Molineux

Jamie Vardy svekktur eftir að hafa klúðrað dauðafæri í leiknum …
Jamie Vardy svekktur eftir að hafa klúðrað dauðafæri í leiknum í dag. AFP

Wolverhampton Wanderers og Leicester City gerðu markalaust jafntefli þegar þau mættust á Molineux-vellinum í Wolverhampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Þrátt fyrir að ekkert hafi verið skorað vantaði ekkert upp á góð færi hjá báðum liðum, þá sérstaklega í síðari hálfleik.

Fábio Silva fékk til að mynda dauðafæri fyrir Wolves á 78. mínútu þegar misheppnað skot Rúben Neves endaði hjá Silva, sem skaut boltanum í hornið en Kasper Schmeichel varði naumlega í horn.

Á 90. mínútu virtist Jamie Vardy, sem kom inn á sem varamaður í leiknum eftir að hafa jafnað sig á meiðslum, vera að sleppa í gegn eftir sendingu Ricardo Pereira en fyrsta snerting Vardy sveik hann og því varð ekkert úr færinu.

Á annarri mínútu uppbótartíma fékk Vardy svo dauðafæri til þess að tryggja Leicester stigin þrjú. Hann fékk þá flotta fyrirgjöf frá Ricardo, smeygði sér fram fyrir Conor Coady, náði skallanum en hann sigldi rétt framhjá markinu.

Þar við sat og liðin þurftu að sættast á eitt stig hvort.

Leicester heldur 3. sætinu eftir þetta jafntefli og Úlfarnir eru áfram í 14. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert