Chelsea vann 2:1 seiglusigur gegn botnliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Chelsea er þar með búið að vinna þrjá sigra í deildinni í röð.
Þegar allt virtist stefna í að markalaust yrði í hálfleik komst Chelsea yfir á 43. mínútu. Þá átti Ben Chilwell frábæra sendingu inn í teig á Timo Werner sem tók flott hlaup, lagði boltann út í teiginn þar sem Mason Mount var einn á auðum sjó og lagði boltann laglega í hornið niðri með vinstri fæti, 1:0, sem voru hálfleikstölur.
Í síðari hálfleiknum var Chelsea áfram með mikla yfirburði en það var þó Sheff Utd sem jafnaði metin á ótrúlegan hátt á 55. mínútu. Oli McBurnie reyndi þá stungusendingu á Oliver Burke, sem náði ekki snertingu. Antonio Rüdiger náði boltanum og ætlaði að senda til baka á Edouard Mendy en það fór ekki betur en svo boltinn rúllaði fram hjá Mendy og í netið, 1:1.
Örskömmu síðar komst Chelsea í sókn þar sem Werner var sloppinn í gegn og pikkaði boltanum fram hjá Aaron Ramsdale í marki, sem felldi svo Werner. Ekkert var dæmt en eftir að Kevin Friend dómari skoðaði atvikið í VAR ákvað hann að benda á vítapunktinn. Jorginho steig á punktinn, tók hoppið sitt og sendi Ramsdale í rangt horn, staðan því orðin 2:1.
Á fimmtu mínútu uppbótartíma komst Billy Sharp nálægt því að jafna metin fyrir Sheff Utd en gott skot hans var vel varið til hliðar af Mendy.
Örskömmu síðar flautaði Friend leikinn af og Chelsea vann þar með sinn þriðja sigur í röð í deildinni undir stjórn Thomas Tuchel.
Chelsea hefur flogið upp töfluna frá því Tuchel tók við og er nú í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins einu stigi á eftir Englandsmeisturum Liverpool.
Sheff Utd er sem fyrr á botni deildarinnar, 12 stigum frá öruggu sæti.