Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham hefur áfrýjað rauða spjaldinu sem Tomas Soucek fékk í markalausa jafntefli liðsins við Fulham í gær.
Soucek fékk beint rautt spjald frá Mike Dean dómara leiksins í uppbótartíma fyrir að reka olnbogann óvart laust í Aleksandar Mitrovic framherja Fulham.
Dean skoðaði atvikið margoft á myndbandi áður en hann rak Soucek af velli, en atvikið vakti hörð viðbrögð hjá West Ham enda um algjört óviljaverk að ræða.
Tékkinn getur fengið allt að þriggja leikja bann, en verði spjaldið dregið til baka má Soucek mæta Manchester United í enska bikarnum á þriðjudaginn kemur.