Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla.
Þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, í samtali við sjónvarpsstöð félagsins, MUTV, í dag.
Pogba fór meiddur af velli í 3:3-jafntefli United og Everton í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester á laugardaginn.
„Paul meiddist aftan í læri í leiknum gegn Everton,“ sagði Solskjær í dag.
„Hann er byrjaður í endurhæfingu og vonandi sjáum við hann sem allra fyrst á knattspyrnuvellinum.
Meiðslin eru þess eðlis að við reiknum með því að hann verði frá í einhverjar vikur,“ bætti Solskjær við.
Þetta er áfall fyrir United en Pogba hefur spilað mjög vel fyrir félagið á undanförnum vikum og verið algjör lykilmaður á miðsvæðinu.