Dómarinn fékk morðhótanir

Mike Dean er ekki vinsæll á Bretlandseyjum þessa dagana.
Mike Dean er ekki vinsæll á Bretlandseyjum þessa dagana. AFP

Enska knattspyrnudómaranum Mike Dean og fjölskyldu hans hafa borist morðhótanir undanfarna daga.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Dean, sem er 52 ára gamall, tilkynnti sjálfur hótanirnar til lögreglunnar.

Þá hefur hann óskað eftir því að fá frí frá dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi og óvíst er hvenær hann verður klár í slaginn á nýjan leik.

Dean hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur en hann rak Tomas Soucek, leikmann West Ham, af velli um síðustu helgi og var harðlega gagnrýndur fyrir vikið.

Þá dæmdi hann einnig leik Manchester United og Southampton sem lauk með 9:0-sigri United en hann gaf tveimur leikmönnum Southampton rautt spjald í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert