Stuðningsmenn Liverpool eru í fyrsta sinn farnir að efast um knattspyrnustjórann Jürgen Klopp að mati Jamie Carraghers, fyrrverandi leikmanns Liverpool.
Klopp gerði Liverpool að Englandsmeisturum í fyrsta sinn í þrjátíu ár á síðustu leiktíð og þá varð liðið Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2019.
Gengi Liverpool á tímabilinu hefur hins vegar valdið miklum vonbrigðum en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig.
„Ég held að stuðningsmenn Liverpool séu með efasemdir um Klopp í fyrsta sinn síðan hann tók við liðinu í október 2015,“ sagði Carragher eftir leik Liverpool og Manchester City í gær en leiknum lauk með 4:1-sigri City.
„Þetta er í fyrsta sinn síðan Klopp tekur við þar sem hlutirnir eru ekki að ganga samkvæmt plani.
Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir fyrir allt félagið, gegn bæði Leicester og Everton.
Þetta eru lið sem eru að berjast á svipuðum stað í deildinni og núna snýst allt um Meistaradeildarsæti hjá Liverpool,“ bætti varnarmaðurinn fyrrverandi við.