Mörkin munu koma

Timo Werner hefur gengið illa að skora að undanförnu.
Timo Werner hefur gengið illa að skora að undanförnu. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea á Englandi, hefur engar áhyggjur af Timo Werner, framherja liðsins.

Werner hefur ekki skorað í síðustu fjórtán leikjum sínum en hann gekk til liðs við Chelsea frá RB Leipzig síðasta sumar fyrir tæplega 50 milljónir punda.

Werner fór mjög vel af stað í búningi Chelsea en þegar líða tók á tímabilið fór að halla undan fæti hjá þýska framherjanum sem hefur skorað fjögur mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Þrátt fyrir að hann sé ekki að skora þá hefur hann verið að spila virkilega vel,“ sagði Tuchel í samtali við Sky Sport.

„Hann lagði upp um helgina, fiskaði vítaspyrnuna sem við fengum gegn Tottenham, og ég sé sjálfstraustið hjá honum aukast með hverjum deginum sem líður á æfingasvæðinu.

Hann fær meira frjálsræði á vellinum núna en hann gerði og það hentar honum betur að mínu mati.

Það eina sem vantar eru mörkin og þau munu koma,“ bætti Tuchel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert