Jóhann Berg Guðmundsson og samherjar í Burnley féllu í kvöld út í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu þegar þeir töpuðu 0:2 á heimavelli gegn B-deildarliðinu Bournemouth.
Sam Surridge kom Bournemouth yfir á 21. mínútu og Junior Stanislas innsiglaði sigurinn úr vítaspyrnu á 88. mínútu. Jóhann Berg lék í 74 mínútur með Burnley en var þá skipt af velli.
Bikarkeppnin hefur ekki verið vettvangur Burnley um árabil en átján ár eru síðan liðið komst síðast í átta liða úrslit hennar. Bournemouth er hinsvegar komið þangað í fyrsta skipti í 64 ár.