Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur áhuga á Romelu Lukaku, framherja Inter Mílanó á Ítalíu.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en forráðamenn City leita nú að arftaka Sergio Agüero sem hefur lítið spilað á tímabilinu vegna meiðsla.
Agüero, sem er 32 ára gamall, verður samningslaus í sumar og hann hefur ekki framlengt samning sinn við enska félagið.
Það bendir allt til þess að hann muni yfirgefa City í sumar en Lukaku þekkir vel til í Manchester eftir að hafa leikið með Manchester United frá 2017 til ársins 2019.
Þá greinir The Athletic einnig frá því að City horfi til Danny Ings, framherji Southampton, sem hugsanlegan arftaka Agüeros.
Agüero gekk til liðs við City frá Atlético Madrid árið 2011 og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 256 mörk í 379 leikjum í öllum keppnum.