„Alex veit hvert hlutverk sitt er hjá félaginu,“ sagði Mikael Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á blaðamannafundi fyrir leik Arsenal og Aston Villa á dögunum.
Margir höfðu vonast eftir því að landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson myndi byrja sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið um síðustu helgi en af því varð ekki.
Matt Ryan, sem gekk til liðs við Arsenal á láni frá Brighton í janúarglugganum, stóð á milli stanganna hjá Arsenal en leiknum lauk með 1:0-sigri Aston Villa.
„Það væru margir stoltir yfir því að vera þriðji markvörður Arsenal,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Vellinum á Síminn Sport á sunnudaginn.
„Auðvitað viljum við sjá okkar mann spila og fá mínútur. Framtíðin er hans og hann þarf að nýta þau tækifæri sem hann fær,“ bætti Margrét Lára við.