Manchester United þurfti framlengingu til þess að knýja fram sigur þegar liðið mætti West Ham United á Old Trafford-vellinum í Manchester í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld. Scott McTominay skoraði sigurmarkið og tryggði Man Utd þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
Man Utd var með tögl og hagldir í fyrri hálfleiknum og komst nokkrum sinnum nálægt því að skora. Victor Lindelöf var til að mynda hársbreidd frá því að koma heimamönnum yfir á 27. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Alex Telles að marki, boltinn fór af Craig Dawson og stefndi í hornið en Lukasz Fabianski í marki West Ham náði að verja boltann í stöngina og út.
Aðeins mínútu síðar fékk Donny van de Beek dauðafæri fyrir miðjum teignum þegar Telles lagði boltann út á hann eftir góðan sprett en skot van de Beek var slappt og fór í Aaron Cresswell og yfir markið.
Því var markalaust í hálfleik.
Í síðari hálfleik virtust leikmenn Man Utd ætla að halda áfram að herja á mark West Ham-manna. Á 53. mínútu fékk Rashford boltann nokkuð óvænt við markteiginn eftir að fyrirgjöf hafði farið í varnarmann West Ham. Kominn í dauðafæri lagði Rashford boltann fyrir sig og skaut svo með vinstri fæti en Fabianski var fljótur út á móti honum og varði vel.
Eftir þetta róaðist leikurinn umtalsvert sem má skrifa að stóru leyti á leikkerfisbreytingu West Ham í síðari hálfleiknum, sem færði sig úr 4-2-3-1 kerfi yfir í 5-4-1. Með því virtust öll sund lokuð fyrir Man Utd, ef undan er skilið áðurnefnt færi Rashford.
Man Utd náði ekki að skapa sér nægilega góð færi það sem eftir lifði síðari hálfleiks og því þurfti að framlengja.
Á áttundu mínútu framlengingarinnar braut Man Utd loks ísinn. Martial geystist þá fram með boltann, kom honum á Fred sem gaf fyrir. Sóknin virtist vera að renna út í sandinn þegar tveir West Ham menn skölluðu boltann frá. Sá síðari, Tomas Soucek, skallaði boltann til hliðar í vítateignum, Rashford var fljótur að hugsa og renndi honum strax til McTominay sem skoraði með föstu og lágu skoti í nærhornið, 1:0.
Man Utd virtist líklegra til þess að bæta við heldur en West Ham að jafna metin en ekki var meira skorað í leiknum og Rauðu djöflarnir því komnir áfram í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar.