Sárt að sjá þessi varnarmistök

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, þakkar Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóra Everton, …
José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, þakkar Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóra Everton, fyrir leikinn í gærkvöldi. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, sagðist vera sár yfir þeim fjölda varnarmistaka sem lið hans gerði í ótrúlegu 4:5 tapi þess gegn Everton í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi.

„Ég naut leiksins og ég naut hans ekki. Ég naut þess allt frá fyrstu mínútu hvernig við spiluðum þegar við vorum með boltann. Við skoruðum fjögur mörk en fjögur mörk var ekki nóg,“ sagði Mourinho í samtali við BT Sport að leik loknum í gær.

„Ef varnarmistökin særa mig þá særa þau alla í liðinu vegna þess að okkur þótti spilamennskan okkar mjög góð. Þegar við vorum með boltann vorum við hugrakkir og sköpuðum mikið. Við vorum betra liðið og svo skyndilega á fimm mínútum gerðum við þrjú mistök og fengum þá þrjú mörk á okkur,“ en staðan var 3:1 í hálfleik fyrir Everton eftir að Tottenham hafði tekið forystuna snemma leiks.

Tottenham náði svo að jafna í 3:3 og aftur í 4:4 áður en Everton skoraði fimmta mark sitt í framlengingu og tryggði sér þar með sæti í átta liða úrslitum enska bikarsins.

Hann notaði samlíkingu um leik kattarins að músinni til þess að lýsa leik sinna manna í gær. „Við komum til baka, við komum aftur til baka og það voru fleiri mistök gerð á meðan við vorum að koma aftur til baka. Það var músin og kötturinn. Músin var varnarmistökin okkar og kötturinn var við sjálfir að reyna að bæta upp fyrir þau á sem bestan máta og það er mjög erfitt.“

„Vinsamlegast ekki láta mig tala of mikið um varnarmistökin sem við gerðum, því þau eru augljós, og mér líður ekki mjög vel með að tala um þau. Við gerðum frábærlega með boltann og við gerðum mistök, og okkur var refsað fyrir þau,“ sagði Mourinho að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert