Fyrirliði Hamranna að hætta?

Mark Noble (t.v.) gæti hætt eftir tímabilið.
Mark Noble (t.v.) gæti hætt eftir tímabilið. AFP

Mark Noble, fyrirliði og miðjumaður enska knattspyrnuliðsins West Ham United, hefur gefið í skyn að farið sé að styttast í annan endann á ferli hans.

„Ég verð 34 ára í maí. Ég á ekki mjög langt eftir en ég ætla að njóta hverrar einustu mínútu,“ sagði Noble við heimasíðu West Ham eftir 0:1 tap liðsins gegn Manchester United í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á þriðjudagskvöld.

Spilatími Noble hefur minnkað talsvert á tímabilinu þar sem miðvallarleikmennirnir Declan Rice og Tomás Soucek hafa haldið honum á bekknum með frábærri spilamennsku. Noble leiddi þó liðið á Old Trafford á þriðjudag og spilaði allar 120 mínúturnar í framlengdum leik.

„Að spila á Old Trafford í kannski síðasta skiptið er sérstakt, því hvort ég spili á næsta ári vitum við ekki. Það er dapurlegt því ég mun ekki spila hér mjög oft til viðbótar, sem er synd og skömm,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert