James Maddison, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Leicester City, segist vonast eftir því að vera valinn í enska landsliðið að nýju.
Maddison, sem spilar í stöðu sóknartengiliðs eða kantmanns, hefur átt mjög gott tímabil fyrir Leicester, þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur sjö í 21 einum leik. Leicester er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Maddison er 24 ára gamall og hefur til þessa aðeins spilað einn landsleik fyrir England, sem kom í nóvember árið 2019 gegn Svartfjallalandi. Hann setur nú stefnuna á að tryggja sér sæti í EM-hóp Englands.
„Ég veit að ég er nógu góður. Ég er bara að vonast eftir því að fá tækifærið. Vonandi er það eitthvað sem ég get leitast eftir við að ná. Ég fer ekki í felur með að það er markmið mitt. Ég stefni á að komast aftur í enska landsliðið, svo einfalt er það,“ sagði Maddison í samtali við BBC.
England mun spila þrjá leiki í mars í undankeppni HM 2022 og svo taka við tveir vináttuleikir um sumarið áður en EM hefst.
„Ef það væri ekki markmið mitt væri eitthvað mikið að. Ég kem í gegnum neðri deildirnar og tilfinningin að spila fyrir þjóð mína gegn Svarfjallaland var besta tilfinning í heimi,“ bætti Maddison við.