Thomas Tuchel, knattspyrnustjóra Chelsea, fannst leikmenn sínir ekki vera nægilega hugrakkir þegar liðið marði B-deildarlið Barnsley 1:0 í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi.
Tuchel gerði 10 breytingar á liði sínu frá 2:1 sigri Chelsea gegn Sheffield United um síðustu helgi.
Chelsea átti í vandræðum í leiknum gegn Barnsley, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, þar sem B-deildarliðið var sterkari aðilinn.
„Við sýndum ekki nægilegt hugrekki og sátum of neðarlega á vellinum í of langan tíma. Við getum augljóslega spilað betur þannig að ég bjóst við meiru, en ekki þannig að ég sé svekktur,“ sagði Tuchel að leik loknum í gær.
Hann gerði tvær skiptingar í hálfleik og breytti um leikkerfi, sem varð þess valdandi að Chelsea spilaði betur í síðari hálfleiknum en Tuchel var þó ekki fyllilega sáttur.
„Við getum gert betur en ég vil ekki vera of óvæginn í garð leikmannanna,“ bætti hann við.
Chelsea er ósigrað í þeim fimm leikjum sem Tuchel hefur verið við stjórnvölinn, með fjóra sigra og eitt jafntefli. Hann tók við liðinu undir lok síðasta mánaðar eftir að Frank Lampard hafði verið rekinn nokkrum dögum áður.