Burnley vann öruggan 3:0 sigur á Crystal Palace á Selhurst Park í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jóhann Berg Guðmundsson kom Burnley á bragðið snemma leiks og skoraði þar með í öðrum deildarleik sínum í röð.
Leikurinn fór afar fjörlega af stað og var Jóhann Berg búinn að koma Burnley yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Fyrirgjöf barst þá frá Erik Pieters, boltinn fór af varnarmanni Palace og þaðan út til Jóhanns Bergs, sem tók eina snertingu út og lagði boltann afar laglega í fjærhornið, 1:0.
Aðeins fimm mínútum síðar tvöfaldaði Jay Rodriguez forystu Burnley þegar hann skallaði hornspyrnu Dwight McNeil í netið af stuttu færi, 2:0.
Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn talsvert eftir því sem leið á hálfleikinn og var staðan 2:0 í hálfleik.
Burnley mætti hins vegar af nákvæmlega sama krafti til leiks í síðari hálfleiknum og var komið í 3:0 á 47. mínútu. Matthew Lowton tók þá sjaldséðan frábæran sprett, gaf á Rodriguez sem gaf sendingu á lofti á Lowton, sem gerði sér lítið fyrir og þrumaði boltanum á lofti í bláhornið.
Burnley var áfram sterkari aðilinn en ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og sterkur þriggja marka sigur liðsins því staðreynd.
Burnley fer með sigrinum upp í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú 11 stigum frá fallsæti. Crystal Palace er áfram í 13. sæti.