Ozan Kabak, miðvörðurinn ungi sem gekk til liðs við Liverpool á láni frá Schalke í byrjun mánaðarins, er í byrjunarliði Englandsmeistaranna í fyrsta sinn þegar þeir sækja Leicester heim í dag.
Kabak spilar sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og verður í miðri vörn liðsins ásamt fyrirliðanum Jordan Henderson.
Henderson er sem kunnugt er miðvallarleikmaður en hefur verið að hlaupa í skarðið í vörninni að undanförnu þar sem allir þrír aðalmiðverðir Liverpool, þeir Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip, eru frá út tímabilið vegna meiðsla, auk þess sem Fabinho meiddist um síðustu helgi í 1:4 tapinu gegn Manchester City.
Þá vekur það nokkra athygli að Thiago er á varamannabekk Liverpool í dag.
Leikur Leicester og Liverpool byrjar klukkan 12.30 og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Textalýsinguna má nálgast hér.