Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur játað sig sigraðan í baráttunni um meistaratitilinn eftir að lærisveinar hans töpuðu 3:1 gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liverpool er ríkjandi meistari en liðið er 13 stigum á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða eftir 23 umferðir.
Klopp ræddi við Sky Sports eftir tapið í dag og aðspurður hvort Liverpool væri úr leik í toppbaráttunni svaraði hann einfaldalega: „Já. Við getum ekki brúað bilið í ár ef ég á að vera hreinskilinn.“
Liverpool var að mestu við stjórn í leiknum gegn Leicester og tók forystuna um miðjan síðari hálfleikinn áður en þrjú mörk á skömmum tíma gerðu út af við meistarana. „Við erum ekki að leita að afsökunum,“ sagði Þjóðverjinn enn fremur í viðtalinu. „Við vitum að við getum gert betur.“