Topplið Manchester City bætti við forystu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3:0-sigri á Tottenham á Etihad-leikvanginum í dag. City er nú sjö stigum á undan Leicester í öðru sætinu og á þar að auki leik til góða.
Rodri kom City í forystu á 23. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að Pierre-Emile Höjberg sparkaði niður Ilkay Gundogan inn í vítateig. Þjóðverjinn Gundogan, sem var á dögunum útnefndur leikmaður janúarmánaðar, skoraði svo næstu tvö mörkin en hann er nú búinn að skora ellefu mörk í síðustu 12 leikjum sínum.
Hann kom City í 2:0 með skoti af stuttu færi er hann stakk sér inn í markteig og fékk sendingu frá Raheem Sterling á 50. mínútu. Hann bætti svo við og rak smiðshöggið á öflugan sigur heimamanna á 66. mínútu er hann skoraði eftir frábæra sendingu Ederson markvarðar yfir allan völlinn.