Everton fékk skell á heimavelli

Ruben Loftus-Cheek og félagar í Fulham gerðu Everton grikk í …
Ruben Loftus-Cheek og félagar í Fulham gerðu Everton grikk í kvöld. AFP

Everton mistókst að fara upp að hlið nágranna sinna í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld er liðið fékk skell á heimavelli gegn botnbaráttuliði Fulham, 2:0.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eru með 37 stig í 7. sætinu og hafa verið að daðra við það að blanda sér í baráttuna um Meistaradeildarsæti en Fulham hefur verið eitt af þremur neðstu liðum deildarinnar í vetur.

Gestirnir blésu þó smá lífi í vonir sínar um að halda sæti sínu í deildinni með sigrinum í kvöld. Josh Maja kom Fulham í forystu snemma í síðari hálfleik, á 48. mínútu, með sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki og hann bætti svo við á 65. mínútu. Renndi þá boltanum í autt netið eftir að skot Harrison Reed small í stönginni.

Gylfi var í byrjunarliði Everton og spilaði allan leikinn. Liðið er áfram í 7. sætinu en á þó leik eða leiki til góða á liðin fyrir ofan sig. Fulham fer upp í 18 stig, er enn í 18. sæti en nú sjö stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert