Pep Guardiola, knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Manchester City, segir fólk hafa hlegið að sér þegar hann sagði Ilkay Gündogan, miðvallarleikmann liðsins, geta spilað sem framherja.
Gündogan hefur átt frábært tímabil með City í ensku úrvalsdeildinni og skorað 11 mörk í 18 leikjum.
„Ég hef oft sagt að hann gæti spilað sem framherji, sem nokkurs konar fölsk nía, og fólk hló að mér. Ég skildi það svo sem vegna þess að hann hefur ekki spilað þá stöðu hér en hann hefur frábæra tilfinningu fyrir marktækifærum,“ sagði Guardiola eftir að Gündogan hafði skorað tvö mörk og fengið víti í 3:0 sigri City gegn Tottenham Hotspur í gærkvöldi.
Gündogan skoraði einnig tvö mörk í 4:1 sigri liðsins gegn Liverpool um síðustu helgi.
„Í dag [í gær] var það hlaup hans og hreyfing sem leiddi til augljósrar vítaspyrnu og eftir það sýndi hann gæði sín með því að skora tvö mörk. Hann er með þessar tímasetningar þar sem hann kemur inn í teiginn. Hann er svo góður í þessum aðstæðum,“ bætti Guardiola við.
Spurður um hvers vegna Gündogan væri að skora svona mikið sagði Guardiola: „Hann er að spila nær vítateignum. Þegar Fernandinho var meiddur fyrir tveimur tímabilum var hann djúpur á miðjunni, þar sem það er erfitt að skora mörk.
Núna spilar hann nær framherjanum og er með ótrúlegt skynbragð á hreyfingar í vítateignum. Svo eru það afgreiðslur hans. Þegar maður skýtur eins og hann gerði í seinna markinu sínu getur [Hugo] Lloris ekkert gert í því.“
Að lokum sagði Guardiola að Gündogan væri á góðri leið með að verða valinn leikmaður mánaðarins, annan mánuðinn í röð. „Hann vann verðlaunin fyrir janúar. Ef hann heldur áfram að spila eins og hann er að gera í febrúar mun hann vinna verðlaunin aftur.“